Höfundur að merki félagsins er Steinunn Kolbeinsdóttir á Uppsölum í Rangárþingi eystra. Hún er að sjálfsögðu félagsmaður og situr í ferðanefndinni. Steinunn hefur hannað allnokkur slík einkennismerki í gegnum tíðina, m.a. fyrir Fræðslunet Suðurlands, Kvenfélagið Sigurvon ofl. Í þessu stílhreina merki má þekkja útlínur á einkennisfjalli okkar Rangæinga – hinum sögufræga Þríhyrningi. Flestir eru einnig á því að Þríhyrningur sé einmitt heimafjall Rangæinga, það sést víða að og sveitarfélagamörk Rangárþings ytra og eystra liggja um toppa fjallsins auk þess sem það þykir einstaklega aðgengilegt og áhugavert til uppgöngu. Það liggur því á borðinu að Þríhyrningur sé einkennisfjall Ferðafélags Rangæinga.