Á aðalfundi Ferðafélags Rangæinga í lok mars sl. var flutt fyrsta ársskýrsla félagsins. Þar kom m.a. fram að starfsemin er kröftug og áhuginn á útivist og hreyfingu mikill en alls voru um 600 þátttakendur í fyrstu göngum félagsins á árinu 2022.
Hreyft var við hugmyndinni að stofnun Ferðafélags Rangæinga í nóvember 2021 og undirbúningshópur myndaður í kjölfarið. Blásið var til stofnfundar í Menningarsalnum á Hellu þann 1. mars 2022 hvar fullt var út úr dyrum en stofnfélagar urðu um 200 manns. Fljótlega var síðan efnt til sérstakrar stofngöngu í blíðviðri en gengið var á Stóru-Dímon. Félagsmenn fjölmenntu til göngunnar og þykir líklegt að aldrei áður hafi svo margir staðið samtímis á toppi fjallsins.
Nú er þetta félag orðið 1 árs og hefur þetta fyrsta starfsár einkennst af vel sóttum og áhugaverðum gönguferðum en markmið félagsins er einfaldlega að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar í hinu fagra Rangárþingi.
Göngudagskrá síðasta árs var annars vegar stuttar miðvikudagsgöngur um Hellu, Hvolsvöll og Þykkvabæ og nágrenni og göngur að Efra-Hvols hellum og í nágrenni Keldna á Rangárvöllum og Akbrautar í Holtum. Þá voru dagsferðir á Þríhyrning, Bjólfell, Landmannalaugar, Skarðsfjall auk stofngöngunnar á Stóru-Dímon og ferðar um Bolholtsskóg. Þá var farin ein hjólaferð um Markarfljótsaura og ein helgarferð í Dalkofa. Frítt var í allar ferðir FFRang þetta fyrsta ár nema hvað innheimt var gjald vegna rútukostnaðar í Þórsmörk og vegna skálagistingar í Dalakofa. Allar þessar ferðir tókust einstaklega vel og var þátttaka mjög góð en alls mættu um 600 manns ef allar ferðir eru taldar.
Ferðafélag Rangæinga, skammstafað FFRang, er áhugamannafélag sem vill stuðla að ferðalögum og almennri lýðheilsu á félagssvæðinu auk þess að styðja almennt við og auka umhverfisvitund og hlúa að menningararfi svæðisins. Skipulagðar eru langar og stuttar, léttar og erfiðari göngur, hjólaferðir og hvers konar útivistarferðir við hæfi sem flestra. Starfssvæði félagsins er Rangárvallasýsla en allir er velkomnir í félagið, óháð búsetu og öllum öðrum flokkunum! Við erum svo heppin að hér í Rangárvallasýslu eru ótal fagrir og spennandi áfangastaðir að heimsækja og verður af nógu að taka á næstu árum.
Nú hefur litið dagsins ljós göngudagskrá 2023 en það er hin geysilega öfluga ferðanefnd FFRang sem hefur sett hana saman en nánari upplýsingar um allar ferðir má finna í Ferðaáætlun 2023 og hér má Gerast félagi fyrir þá sem vilja taka þátt í þessu ævintýri með okkur – það er tilvalið fyrsta skref til aukinnar útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap í Rangárþingi.
Á aðalfundi félagsins sem haldinn var 29. mars s.l. var flutt skýrsla stjórnar, lagðir fram reikningar og kosið til nýrrar stjórnar í samræmi við lög félagsins. Stjórnina skipa nú þau Ágúst Sigurðsson, Björn Ingi Jónsson, Emilía Sturludóttir, Helgi Jóhannesson, Sigurður Þór Þórhallsson og Sigríður Theódóra Kristinsdóttir