Rangæingar fylktu liði

Á toppi Stóru-Dímonar
Á toppi Stóru-Dímonar

Stofnganga Ferðafélags Rangæinga fór fram þann 1. maí 2022 í blíðviðri en gengið var á hið þekkta fjall og kennileiti Rangæinga - Stóru Dímon. Félagsmenn fjölmenntu til göngunnar en talið er að allt að 250 manns hafi tekið þátt og ykir líklegt að aldrei áður hafi svo margir staðið samtímis á toppi Stóru-Dímonar. Stutt athöfn var við rætur fjallsins áður en til göngunnar kom en þar var m.a. greint frá tilurð Ferðafélags Rangæinga sem nú hefur verið stofnað og er þegar orðin allnokkur fjöldahreyfing og sérstök deild í Ferðafélagi Íslands. Afhjúpað var einkennismerki félagsins sem hannað er af Steinunni Ósk Kolbeinsdóttur en í merkinu má m.a. greina fjallið Þríhyrning sem víða sést að úr Rangárþingi. Kvennakórinn Ljósbrá flutti nokkur lög við góðar undirtektir og fluttar voru góðar kveðjur frá velunnurum félagsins m.a færði Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ hinu nýja félagi góðar gjafir í formi margvíslegs öryggisútbúnaðar. Á tindi Stóru-Dímonar var útsýni stórfenglegt til allra átta og þar flutti með tilþifum Gústav Þór Stolzenwald félagi í FFRang kvæðið Gunnarshólma blaðlaust og í fullri lengd - en þar blasir við sögusvið kvæðisins. Vakti þetta mikla hrinfningu göngufólksins og líður seint úr minni. Var þá gengið nður og þáði göngufólk rausnarlegar veitingar sem voru m.a. í boði Sóma Ölgerðarinnar, Innes og Almars Bakara. Var mikil ánægja með stofngönguna sem sló taktinn fyrir sumarið hjá ferðaglöðum Rangæingum.